Undantekningin sem sannar regluna

Þorfinnur var að renna í hlað hjá mér á hjólinu sínu. Í helli rigningu. Já, það er farið að rigna og það ansi hressilega. Ég var búinn að fullyrða það að veðrið yrði gott en svo virðist sem að einhver þarna uppi ráði meiru um það en ég og mitt afmæli.

Þannig að ferð í Húsdýra og fjölskyldugarðinn er í uppnámi. Ég bara hef engann áhuga á því að fara ef veðrið verður svona.

Við ætlum að sjá til hvað setur. Ef að styttir upp þá förum við, annars ekki. 


Til hamingju með afmælið ég.

Ég á afmæl'í dag,
ég á afmæl'í dag.
Ég á afmæli sjálfuuuuuuuur.
Ég á afmæl'í dag.

Til hamingju með afmælið, ég.

Ó takk fyrir ég.

Hvað er ég gamall/ungur í dag?

Ég er 36 ára.

Svo mörg voru þau orð.

Þengill svaf til 9:30 og við Bríet til 8:30. Æði. 


Sjallar í garðinn í boði Samfylkingarinnar

Ég fékk tvo miða afhenta við Rimaskóla í gær á sumardeginum fyrsta. Samfylkingin er með kosningaskrifstofu í Miðgarði í Grafarvogi og sendi strák út af örkinni með bunka af miðum að gefa. Og hann gaf mér einn og svo fann ég einn siðar.  Ég ætla að fara með börnin mín og njóta dagsins með þeim þarna. Þetta verður örugglega gaman. Og það verður gott veður líka því ég á afmæli og það er alltaf gott veður á afmælsidegi mínum. Svo lengi sem ég man eftir mér.

Það vill þó svo skemmtilega til að ég er yfirlýstur Sjalli sem og sá sem fær að njóta hins miðans. Hann kemur með sína fjölskyldu. Ég mun þó þakka fyrir mig ef ég sé Össur, Ingibjörgu eða aðra frambjóðendur, og ef ekki, þá þakka ég hér með fyrir mig. Mér datt í hug að mæta með bláa XD nælu en það væri bara dónaskapur og vanþakklæti. Og það er ekki minn stíll að vera vanþakklátur dóni.


mbl.is Samfylkingin býður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grasekkill - dagur 6

Jæja, upp á Esjuna fór ég í gær. Við Jón Heiðar fórum í tvíeyki upp og vorum 1 klst og 2 mín upp að steini. Þetta var bara ágætis túr. Ég reyndar rifjaði það upp að þegar ég var þrítugur var ég rétt rúmlega klukkutíma að fara upp og niður. Farið er það form :(

En á meðan ég var nýbúinn að svitna á Esjunni var mamma með börnin. Hún fór í Rimaskóla með þau þar sem dagskrá var, hoppukastalar og svoleiðis. Nema hvað að þegar ég var nýkominn úr baði hringdi mamma og bað mig að hjálpa sér. Þengill var ekki sáttur við að þurfa að bíða alltaf í röð eins og hinir og lét ófriðlega. Ég mætti bara á staðinn og þetta var bara gaman fyrir þau blessuð börnin að vera þarna. Og Samfylkingin gaf mér miða fyrir mig og börnin í Húsdýra og Fjölskyldugarðinn á laugardaginn, sem er afmælisdagurinn minn. Ég fékk reyndar einn til viðbótar seinna og ætla að bjóða Þorfinni og Söru og co þann miða.

Síðan var farið í bakkelsi og svo kvöldmat hjá mömmu og pabba. Svo heim að sofa.

Grasekkill - dagur 5

Jæja, þá erum við börnin komin á fætur. Sumardagurinn fyrsti framundan. Þetta virðist ætla að verða kaldur en bjartur dagur. Heiðskýrt en frost. Sumar og vetur frusu sem sagt saman og það boðar gott sumar.

Passatinn var aftur rafmagnslaus í gær þegar ég ætlaði heim úr vinnunni. Dauður. Ég fékk start hjá Kalla og fór rakleiðis í N1 (bílanaust). Þegar þangað kom var búið að loka, klukkan orðin tvær mínútur yfir. Ég grenjaði úr mér augun um rafgeymamál mín við afgreiðslumann sem stóð í dyrunum og varnaði svona eftirlegukindum eins og mér inngöngu eftir lokun. Hann sá aumur á mér, svona tárblautum og vesællegum og afgreiddi mig meir að segja sjálfur um geymi.

Síðan fór ég heim til M&P í mat, dýrindisgóða fiskisúpu. Síðan þegar heim átti að fara frá þeim var bíllinn aftur orðinn rafmagnslaus. Pabbi kom út með vasaljós og kíkti ofan í geymirinn. Og úrskurðurinn var: Ónýtur. S.s. ég hafði gert rétt með því að kaupa nýja rafgeyminn og setti ég hann í þegar heim kom. Bríet og Þengill hjálpuðu mér að sjálfsögðu og var aðstoð þeirra ómetaneg við að losa og herða þessar þrjár rær sem og að skipta um geyminn sjálfann.

Þar af leiðandi hef ég engar áhyggjur af því hvort bíllinn fari í gang núna, hann er með nýjan geymi.

Við förum til mömmu og pabba eftir smástund. Þau ætla að hafa börnin á meðan ég skrepp uppá Esjuna svona snöggvast. Já, ég er á leiðinni uppá Hvannadalshnjúk eftir mánuð og það er sko kominn tími á að ég fari að koma mér í eitthvað form til þess arna. Skrifa um það seinna.

Já, og E. Golfinn er kominn aftur á söluna og verður þar meðan ég/við þurfum ekki á tveim bílum að halda. 


Grasekkill - dagur 4

Já, dagarnir koma og fara. Líka þegar maður er grasekkill. Dagurinn í gær var ekkert neitt stórmerkilegur fyrir utan það að mér tókst að fara í Sorpu með hauginn af flöskum og dósum sem var í kerrunni okkar og kom úr Berjarima. 244 plastflöskur, 138 áldósir og 55 glerflöskur. Og fyrir þetta fékk ég 4370 kr. takk fyrir. Fór líka með dagblöðin og fékk ekkert fyrir það.

Síðan fór ég til mömmu að ná í börnin og þar sagði Þengill "Ég þekki þig" þegar ég tók hann upp. Já, ég var hálf feginn að hann þekkti mig, ég er kominn með svo mikið skegg núna og hár að maður er óþekkjanlegur orðinn. Ég fór með Bríeti og Þengil heim og kom þeim í rúmið. Síðan horfði ég á mynd sem heitir "The good Shepherd" um fæðingu og tilurð CIA og þótti hún hin besta skemmtun.

Í morgun tók við hinn hefðbundni dans að koma börnunum á fætur og í leikskólann. Nema hvað að í dag var smá action í morgunsárið. Bíllinn var rafmagnslaus þegar ég reyndi að ræsa hann og allir heimilismeðlimir komnir í belti. Já, rafmagnslaus.  Blessunarlega var ég með startkapla í bílnum. Og ég rak upp hið alþjóðlega og alþekkta neyðaróp og hringdi í mömmu. Ég vissi nefnilega af henni á ferðinni í nágrenninu á þessum tíma. Og viti menn, hún svaraði og var komin eftir 4 mínútur að redda syninum og barnabörnum sínum, svo þau gætu haldið áfram á vit nýrra ævintýra.

Nú er bara framhaldssagan: Verður Passatinn rafmagnslaus á eftir? Í fyrramálið? Ég læt ykkur vita á morgun. 


Grasekkill all over again - dagur 3

Við börnin vöknuðum að morgni sunnudags sl. og okkur þótti sem eitthvað vantaði. Við vorum fljót að átta okkur á því að mömmu vantaði. Já, Elsa fór til Hollands í tvær vikur í námskeið á vegum IKEA. Ég er s.s. orðinn grasekkill all over again.

Sunnudagurinn leið nokkuð vel og án teljandi atvika. Við bara sinntum því að koma okkur fyrir í nýja húsinu okkar, og þetta er allt að koma. Börnin söknuðu mömmu sinnar að sjálfsögðu og ég líka, en við hörkum þetta af okkur og hlökkum til endurkomu hennar. Þengill tók uppá því að nota snuð sunnudagskvöldið og fór með það að sofa. Drengsi er 2 1/2 árs gamall og hefur aldrei viljað snuð hingað til. Pabba hans þótti það nú heldur seint í rassinn gripið að Þengill færi að totta "duddu" núna á "gamals" aldri en svona er það.

Þengill vaknaði svo daginn eftir, í gærmorgun, og krafðist snuddu sinnar strax og engar refjar. Hann fékk það að sjálfsögðu. Og með þetta fór hann í leikskólann.

Mamma sótti börnin í leikskólann og mun sækja þau í fjarveru Elsu svo ég geti nú klárað mína vinnu dag hvern. Síðan sæki ég þau til hennar. Nema hvað að í gær fengum við líka að borða hjá mömmu og það var gaman að sjá hvað Þengill tók hraustlega til matar síns. Hann gúffaði í sig 4 heilar kjötfarsbollur með bestu list, og systir hans, Bríet fékk sér 2. Og krafðist þess að sitja við hlið Friðgeirs frænda, bróður míns, við matarborðið, sem einnig var í heimsókn hjá mömmu og pabba.

Nú, svo fórum við öll heim í Æsuborgir og tókum til við að vinna á geymsluhaugnum sem er núna í bílskúrnum. Já, allt sem var í geymslum í Berjarima er núna í bílskúrnum og váááá hvað við áttum mikið dót. Kassar og pokar með dóti, bókum, fötum og ýmsu fylltu bílskúrinn. Og við pabbi og mamma unnum í því í gær að sortera þessa kassa og poka og setja uppá loftið til betri geymslu þar sem maður þarf ekki að horfa á þessar söfnunarsyndir dag hvern.  Við náðum slatta góðum árangri og í dag ætla ég að reyna að komast í gegnum það að flokka allar dósirnar og plastflöskurnar sem við tókum úr Berjarimanum og fara með í sorpu, sem og að klára skúrinn eins og ég get.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband