Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.5.2007 | 10:50
Jösssssss góður kosningasigur
Þetta er frábær árangur. Ekki einungis hélt stjórnin velli heldur bættum við okkur 3 þingmönnum. Frábær sigur þarna. Nú er bara vonandi að Geir átti sig á því að það er ekki vænlegt að halda áfram með Framsókn svona vængbrotinni og blikka Ingibjörgu Sólrúnu um stjórnarsamstarf. Eins manna meirihluti er allt of veikur til að fara í stjórn með hann. Reyndar er Kristinn H. Gunnarsson ekki lengur með og þannig ekki á staðnum til að beita neitunarvaldi. Spurning hvort að Frjálslyndir myndu vilja vera memm.
Vinstri grænir unnu einnig góðan sigur en vonandi halda bara áfram að vera í því að nöldra á hliðarlínunni. Stjórn með þeim væri skelfileg.
![]() |
Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 01:28
Upprennandi virtuoso
Við Elsa fórum í Salinn í Kópavogi í gær að hlýða á Víking Heiðar Ólafsson spila á píanó. Hann flutti:
J. S. Bach: Frönsk svíta nr. 4 í Es-dúr
L. v. Beethoven: Sónata op. 57 í f-moll Appassionata
HLÉ
Ólafur Óskar Axelsson: Píanósvíta (2007) frumflutningur
F. Chopin: Sónata nr. 3 í h-moll
Þetta voru stórkostlegir tónleikar. Það er ekkert annað um þetta að segja. Fyrir mína parta þá þótti mér fluttningur hans á Chopin bera af. Chopin, ásamt Rachmaninoff er mitt uppáhaldstónskáld og ég gerþekki þessi sónötu. Reyndar var minn samanburður á fluttningnum gagnvart Arthur Rubinstein, ójafn samanburður kannski, en Víkingur flutti sónötuna af miklu öryggi og stórkostlegri innlifun og túlkun. Hann var bara hreint út frábær. Einnig var hann að frumflytja verk eftir föður sinn sem var bara virkilega skemmtilegt áheyrnar. Skemmtilegur ritmi og spennandi laglínur.
Beethoven var flottur líka. Reyndar komu nokkrar feilnótur hjá honum í byrjun, varla heyranlegar nema fyrir þá er þekkja verkið, en ég, og sennilega allir áheyrendur, hugsuðum rosa jákvætt og sendum kvattningarhugskeyti, sem greinilega skiluðu sér því seinni helmingur var stórkostlegur.
En mest þótti mér til koma encore lagið sem hann flutti. Hann flutti smá eintal í minningu um afa sinn, Víking, sem er nýfallinn frá, talaði fallega til hans og um hann og flutti svo sína útsetningu á "Ave Maria" eftir Sigvalda Kaldalóns honum til heiðurs. Og mikið afskaplega spilaði hann þetta vel.
Ef Víkingur les þetta einhvern tíma, þá takk kærlega fyrir mig.
Reyndar sá ég hann spila Beethoven píanókonsert með sinfóníunni fyrir nokkru, og svo settist hann fyrir aftan mig eftir hlé á meðal áhorfenda. Þannig að ég var í návist þessa upprennandi mikilmennis þessar mínútur.
Ég er þess fullviss um að þarna er á ferð gífurlegt efni í virtuoso. Vegni honum sem best.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 16:17
Er villa óvænt
Ég var að velta fyrir mér óvæntum villum í hugbúnaði.
Það gerist stundum að maður er að nota/búa til forrit eða einhvern hugbúnað og fær skilaboð um að óvænt villa hafi komið upp. En af hverju þarf að taka fram að villan sé óvænt? Eru þær ekki allar óvæntar? Hvenær hefur maður fengið skilaboðin:
"Fyrirfram ákveðin villa varð í hugbúnaðinum og þú mátt þakka okkur fyrir hana, vesgú".
Ég held að svarið liggi í því að ef að villan er fyrirfram ákveðin þá er þetta ekki villa lengur heldur fídus.
11.5.2007 | 11:08
Esjan í bítið
Fór á fætur kl. 5:30 í morgun, skóflaði í mig morgunmat, náði í bakpokann minn og hélt að rótum Esjunnar. Á leiðinni fór ég fram hjá hópi hjólreiðamanna, sem komu einnig að Esjunni og fóru upp einnig. Þeir reyndar voru komnir upp á undan mér enda fóru þeir styttri leiðina.
Ég náði upp að Steini á 54 mín og 28 sek. og þótti mér það ágætt miðað við að ég var 58 mín. síðast. Ég held ég reyni að fara upp 2-3 sinnum aftur fram að næstu helgi en þá fer ég á Hvannadalshnjúk með 30 vinnufélögum mínum.
Á leiðinni niður var ég á undan hjólreiðarmönnunum næstum alla leið. Rétt áður en ég kom að bílastæðinu komu þrír hlaupandi framhjá mér og bauð einn þeirra mér góðann daginn. Ég reyndar þóttist kannast eitthvað við kauða og sá, þegar á bílastæðið kom, að þarna var á ferð einn vinnufélagi minn af IT sviði Kaupþings.
Ég reyndar fór einu sinni á Esjuna á svipaðan máta og þeir gerðu, þ.e. spretti upp og hljóp niður og allt með bakpoka á bakinu. En þá var ég í flottu formi og hljóp hálf-maraþon nokkrum dögum síðar. Það form er löngu farið en annað form komið í staðinn, öllu verra. En það er svona, tímarnir breytast og mennirnir með. Mér þykir meira gaman þessa dagana að eta, borða vera með börnunum og fjölskyldunni en að hlaupa og dandalast um holt og hæðir.
Hef þó engar áhyggjur af Hnjúknum. Hann verður pís of keik. Been there, done that í frönsku Ölpunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 13:08
Óska samt breytinga
Já, stjórnin heldur víst velli skv þessari könnun. Gerði það ekki í gær en gerði það í fyrradag. Ef hún heldur velli vona ég samt að Geir hafi gæfu til að blikka Ingu Sollu og bjóða þeim í dans í fjögur ár. Maður er orðinn doldið leiður á Framsókn.
Góðu fréttirnar eru þær að VG dala og dala og dala. Þau mega dala aðeins meir.
![]() |
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2007 | 10:07
DV nei takk!!!
Þegar við vísitölufjölskyldan komum heim í gær beið okkar póstur við dyrnar, eins og vanalega. Nema hvað að í þetta sinn var þarna DV í hrúgunni. Við Elsa urðum undrandi enda ekki áskrifendur af þessu blaði. Nema hvað að ég fór að glugga í það eftir matinn, svona til að sjá af hverju ég fékk þetta. Jú, það kom í ljós að áskriftarátak er í gangi hjá þeim. En að efninu.
Það var að sjá af forsíðunni að í blaðinu yrði kjörtímabilið gert upp. Ekki kjörtímabil stjórnarinnar heldur bara kjörtímabilið. Samt voru einungis orð og verk sitjandi ríkisstjórnar gerð upp. Og ekki það jákvæða. Nei, einungis það neikvæða. íraksmálið, skattamál, fjölmiðlafrumvarpið, Baugsmálið o.s.frv. Ekkert um skattalækkanir, velferðamál, menntamál, heilbrigðismál, sala Símans, sala bankanna, ekkert sem stjórnin gerði sem var jákvætt.
Og ekki heldur var minnst á neitt af því stjórnarandstaðan gerði eða sagði. Jákvætt eða neikvætt. Það var því alveg augljóst að þetta DV blað var áróðursblað. Sem væri fínt ef árið væri 1983 meðan Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn voru og hétu. En nú til dags þykjast fjölmiðlar vera hlutlausir og taka sjálfa sig ofsalega hátíðlega. Prímadonnur. En nafni minn Egilsson fellur þarna í þann fúla pytt að vera með rakalausann áróður á huglægu mati blaðsins á staðreyndum þessa kjörtímabils rétt fyrir kosningar.
Mér líkar ekki svona "blaðamennska". Ef fyrirsögnin á forsíðu hefði verið "Neikvæðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu" þá hefði maður vitað að nú yrði farið yfir allt sem neikvætt var. Ekkert jákvætt, og allt bundið við ríkisstjórnina. En ef blaðið þykist ætla að gera upp kjörtímabilið þá er ekki úr vegi að stækka mengið, ekki satt?
En svo sá ég í morgun að Hreinn Loftsson er stjórnarformaður DV. Hmmmm ætli það hafi eitthvað að segja um efnistök þessa blaðs?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 12:40
Gott hjá henni
Það er ekki nóg að hlutirnir líti út fyrir að vera bognir, þeir þurfa að vera bognir í raun. Kastljósið fór af stað með þetta mál af of miklu offorsi án þess að vera með staðreyndir á hreinu. Því er gott hjá Jónínu að láta hitna aðeins undir þeim þarna í Kastljósinu.
Annars mun ekkert koma út úr þessu. Fréttamenn verða að fara á sama level og DV var á til að fá áminningu. Þessi sjálfhverfa stétt á aldrei eftir að skamma sjálfa sig fyrir þetta mál. Ekki ef sama stétt verðlaunar Guðrúnu söngkonu [sem var] í Íslandi í Dag þegar hún neitaði að tala við Ron Jeremy. Ekki sama stétt og setti á svið farsa, fréttatíma eftir fréttatíma, þegar fréttastjóri, ekki þeim þóknanlegur, var ráðinn.
Talandi um hlutleysi blaðamanna....
![]() |
Umhverfisráðherra ætlar að kæra umfjöllun til siðanefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2007 | 10:05
Af hverju er útivistartími bundinn í lög?
Þegar ég var krakki og unglingur skildi ég aldrei af hverju útivistartími var bundinn í lög. Mamma og pabbi sögðu mér hvenær ég ætti að koma inn og það voru þau lög sem ég fór eftir. Löggan þurfti ekki að fylgjast með því, því löggan var heima.
Enn þann dag í dag skil ég ekki af hverju þetta þarf að vera í lögum. Og mig grunar að þegar það kemur að mér sem foreldri að stýra útivist barna minna muni ég ekki huga neitt að því hvað lagabókstafurinn segir heldur frekar veðri, árstíma, dagskrá næsta dags og öðrum þáttum.
Hvernig er það, er fylgst með þessu í sveitum landsins? Þegar heyskapur er á fullu hjá bændum og menn keppast að nýta þurrkinn, er þá löggan að fylgjast með að ungar, hjálpsamar hendur fylgi lagabókstafnum? Og í sumarbústöðum, hvað með þá? Er löggimann að fylgjast með því að börn séu ekki að leika sér of mikið úti á björtum sumarkvöldum fram að miðnætti? Gleyma sér í að búa til ævintýraheima og góðar minningar fyrir ævikvöldið?
Nei, þessi lög um útivist barna þurfa góða stólpípu.
![]() |
Útivistartími barna breyttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.5.2007 | 10:09
Andsvör virka ekki á suma
Það er með ólíkindum að lesa skrif sumra um þetta mál. Allt sem komið hefur fram í gögnum sýnir svart á hvítu að Jónína kom ekki nálægt því að hafa áhrif á framgang máls tengdardóttur sinnar. Samt er hjakkað í sama farinu hjá sumum. Það er sama hversu oft nefndarmenn neita óheilindum, því er ekki trúað. Eins og fólk reikni með því að stjórnmálamenn ljúgi by default.
Það er bara svona, sumir vilja bein til að smjatta á, burtséð hvort beinið sé bragðlaust eða ekki. Tilgangurinn helgar meðalið.
Verði þeim að góðu. Og Kastljósið má skammast sín. Þau fóru af stað með mál sem á finnast eðlilegar skýringar og sitja núna með skítugar hendur, Helgi Seljan í brotti fylkingar. Birta þar að auki persónuupplýsingar stúlkunnar í Kastljósinu.
Mikið vona ég að skítugi þvottur þeirra verði einhverntíma til sýnis fyrir framan alþjóð. Svona svo þau fái að smakka á sínum beisku meðölum.
![]() |
Um ríkisborgararétt og Kastljósið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.5.2007 | 13:17
Vorverin hafin
Jæja, nú eru hafin verk sem ég hef aldrei unnið áður sem húseigandi. Klippa runna, raka lauf og rífa arfa úr beðum. Já, vorverkin eru hafin þó sumarið sé komið. Og ég er að komast að því að fingur mínir gætu alveg verið grænir ef ég nennti.
Svo er maður að skoða lóðina og pæla í því hvernig pallurinn á eftir að liggja... Og hvar potturinn á eftir að koma... Cooooool.