Hvannadalshnjúkur klifinn

Ég hef lengi haft gaman af fjallaklifri og fjallgöngum þó ekkert sé nú rökrétt í því að puða við að ganga uppá fjall til þess eins að koma svo strax niður aftur. En hvað um það. Ég fór ásamt 16 öðrum vinnufélögum mínum á föstudaginn austur að Hofi til þess að fara daginn eftir upp á Hvannadalshnjúk, hæsta tind Íslands. Við fórum með Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum sem stóðu sig mjög vel.

Ferðin var frábær, stórkostleg. Við hófum labbið kl. 5 í 100 m. hæð og vorum nokkuð mörg enda ekki bara hópur frá Kaupþingi þarna heldur einnig frá Aktavis og öðrum fyrirtækjum. Við gengum upp að snjólínu og þar var farið í línu, þ.e. myndaðir hópar af 8 + 1 (guide) sem voru tengdir saman með reipi. Síðan var haldið af stað upp ákaflega merkilega brekku í jöklinum að því leiti að ég hef aldrei farið gengið upp jafn jafnaflíðandi og langa brekku. Hún ætlaði bara engan enda að taka. Reyndar var veðrið leiðinlegt þarna, mikill mótvindur, kuldi og skafrenningur. Þegar brekkan tók enda tók við n.k. slétta sem er í raun sprengigígur eftir sprengigos í Hvannadalshnjúk árið 1372 sem lagði sveitina í rúst og lækkaði Öræfajökul svo mikið að hnjúkurinn varð hæsti tindur landsins. Þar lægði vindinn og sólin fór að skína.

Við komumst svo upp á hnjúkinn á endanum kl. 16:35 við mikinn fögnuð. Veðrið var fínt og frábært útsýni þaðan.

Svo var haldið niður aftur og þegar við fórum niður brekkuna miklu var þreyta farin að segja til sín, fætur orðnir aumir og bakið einnig. Þetta varð enn verra þegar við komum aftur niður fyrir snjóinn, þá voru fæturnir orðnir virkilega aumir eftir langann dag. Og síðasti kílómeterinn var erfiðastur vegna þess að ekki einungis voru fæturnir aumir orðnir heldur voru batteríin að verða búin, lágur blóðsykur og vökvatap farið að segja til sín. Svo rammt var þetta orðið að 100 metrum frá bílastæðinu (endastöð) varð ég að setjast niður og teiga síðustu golsopa af PowerAid sem ég var með með mér, svo að það liði hreinlega ekki yfir mig.

Þegar á hótelið kom kl 21:30, fékk ég svo smá heimagerðan snapps frá Haute Savoi í Frakklandi, sem rifjaði upp gamlar minningar og mýkti smá kroppinn. Síðan var farið í sturtu, borðaður kvöldverður og bjór með og svo beint í bólið, örþreyttur.

Daginn eftir vaknaði ég kl. 9:30 alveg endurnærður og satt best að segja held ég að ef önnur eins ferð hefði verið á dagskrá aftur svona strax næsta dag hefði ég alveg verið game. En þessi ferð var þó heldur löng, 16 tímar, og af þeim skrifast alveg þrír tímar á bið á bið ofan vegna tafa sem urðu vegna fólks sem þurfti að snúa við vegna veikinda, þreytu og meiðsla. Það var nett pirrandi að norpast þarna uppi í bið, finna kroppinn kólna í veðrinu á leiðnni upp og vita að það voru nokkrir hópar sem tóku fram úr okkur, bara vegna þess að við höfðum verið óheppin með forföll á leiðinni upp.

Ég er alveg til í að gera þetta aftur og mæli með þessari ferð fyrir fólk sem sér ekkert heimskulegt við að fara upp á hæsta tind landsins til þess eins að koma niður aftur. Ég var ánægður að finna að úthaldslega var þetta ekkert mál fyrir mig, þarf bara að vanda betur fæðuvalið næst og koma með meira vatn.

Ég stefni á að setja myndir úr þessari ferð á myndasíðuna mína seinna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband