14.11.2011 | 13:31
Þau vilja stöðva ALLAR virkjanir
Ég las þessa frétt og ákvað að kíkja smá á heimildir. Þessi frétt er unnin upp úr skjali sem heitir "Umsögn um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða" (pdf). Þar er að finna hvaða samtök standa að þessu skjali.
Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi
Félag um verndun hálendis Austurlands
Framtíðarlandið
Fuglavernd
Landvernd
Náttúruvaktin
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN)
Sól á Suðurlandi
Verkefnastjórn þessa skjals var m.a. stýrt af Árna Finnssyni sem m.a. hefur unnið sér það til frægðar að leita til utanríkisþjónustu Bandaríkjanna (sendiráðs USA á Íslandi) til að fá Bandaríkjastjórn til að beita sér gegn Íslandi vegna hvalveiða. Svo hófsamur er Árni.
En allavega, í þessu skjali er m.a. að finna á bls 9 töflu yfir í hvaða flokk þessi samtök vilja setja virkjanahugmyndir sem eru í drögunum (þau taka ekki afstöðu til allra hugmyndanna). Þetta er ekki flókið, ~90% þessara hugmynda vilja þau setja í verndarflokk, restina í biðflokk. Ekki ein einasta ratar í orkunýtingarflokk, þ.e. af þeim virkjanahugmyndum sem þau taka afstöðu til.
Þá vitum við það, hvað þau vilja.
Vilja stofna þjóðgarð á miðhálendinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Facebook
Athugasemdir
Þú fjallar hér aðeins um um umsagnir náttúruverndarsamtakanna en ekki um umsagnir virkjanasinna því að þá hefði útkoman líkast til orðið: ÞAU VILJA VIRKJA ALLT.
Umsagnarferlið átti nokkrar vikur eftir þegar Orkuveita Reykjavíkur gaf upp boltann og vildi hrinda því að Bitra færi í verndun. Fljótlega kom krafa um virkjun í Gjástykki í stað verndunar.
Þeir sem að svona umsögnum standa hafa þegar fengið fram 28 virkjanir sem framleiða meira en fiimmfalda þá orku sem við þurfum til eigin nota. Þessu er alltaf gleymt.
Þegar ljóst var af viðbrögðum aðila á borð við Orkuveitu Reykjavíkur að ÞAU MYNDU VILJA VIRKJA ALLT varð að sjálfsögðu að veita viðnám við slíku, svo að við ákvörðun um flokkun væru fyrir hendi rök bæði með og á móti sem hægt væri að skoða.
En auðvitað hefðu sumir óskað þess að einungis fengjust fram umsagnir þeirra sem vilja virkja allt en ekki þeirra sem vilja andæfa.
Ómar Ragnarsson, 14.11.2011 kl. 14:47
Takk fyrir innlitið, Ómar.
Vissulega nefni ég ekki virkjunarsinna, enda nettur virkjunarsinni sjálfur, hóflegur þó. Það sem truflaði mig mest við þessa frétt var þó ekki endilega ekki-virkja-neitt nálgun þessa hóps, enda er ekki til sú virkjunarhugmynd sem t.d. Árni Finnsson og co hafa ekki mótmælt (hvernig ætla þau annars að framleiða verðmæti?).
Nei, það sem truflaði mig mest, langmest, var þessi hugmynd um að allt hálendið yrði gert að þjóðgarði. Örlög þessa þjóðgarðs yrðu þá að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar, þjóðgarðurinn notaður sem hækja til að stöðva virkjanaframkvæmdir en einnig umferð hinna "óæskilegu", jeppafólks og veiðimanna. Það urðu jú örlög þeirra í Vatnajökulsþjóðgarði, úthýst af svæðum sem þau hafa nýtt af virðingu og hófsemi í áratugi. Ég held nú að þú hafir orðið var við þá heift sem leystist úr læðingi er Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Friðunarsinnum var svo umhugað enginn ferðist nema gangandi að nær ekkert samráð var haft við aðra hagsmunaaðila eins og t.d. 4x4.
Þú býsnaðist nú aldeilis um daginn yfir reglugerðafargani út af fluginu, nú mega engir varahlutir fara í flugvélar t.d. sem ekki eru vottaðir. Þetta er af sama meiði, verið að tamla gróflega því líferni sem fólk hefur ástríðu fyrir, að ferðast um landið á jeppum nú eða veiðimennsku.
Sjálfur geng ég mikið á fjöll, hef mikið yndi af því og að njóta landsins okkar. En ég bý líka í veröld þar sem maður vill tryggja frábært og ríkt samfélag, sem nú nýlega fékk högg út af bóluframleiðslu. Með því höggi kemur skilningur á einu mikilvægu prinsippi: Við byggjum ekki auðleg þjóðar á bóluframleiðslu. Nei, við þurfum að framleiða alvöru verðmæti og þá helst til útflutnings. Það verður ekki gert með "fjallagrösum" svo ég noti nú útjaskaða upphrópun. Nei, það verður gert með orkuuppbyggingu eða hráefnisöflun. Fiskur eða orka og afurðir orku, allt til útflutnings. Fiskurinn er takmörkuð auðlind og mikilvægt að ofveiða ekki. En við eigum fullt af möguleikum í orkuuppbyggingu sem sátt er að myndast um með stefnumótun stjórnvalda. Það er EKKI, að mínu mati, þroskað skref í rétta átt að koma með svona hugmynd eins og þessi skýrsla segir. Að setja allt í sellófan vernd með stofnun þjóðgarðs til að afsaka stöðvun á uppbyggingu okruiðnaðar.
En þú nefndir á bloggi þínu að þetta væri n.k. mótvægi við "VIÐ VILJUM VIRKJA ALLT" sem t.d. OR gæti komið með. Alveg rétt. Veistu hvað þetta heitir? Pólitísk umræða í skotgröfum.
Ef það er eitthvað sem er orðið töluvert mein í okkar samfélagi þá er það einmitt þetta, ekki nokkur leið að ræða hlutina í hófsemd og bræðralagi. Það eru alltaf einhverjir sem stökkva út í öfgar, fá upp öfgaviðbrögð hinum megin og svo öskra menn á hvorn annan yfir Helvítisgjánna (Ronja Ræningjadóttir), kallandi hvorn annan illum nöfnum.
Ég vill halda í þá leið sem nefnd um orkustefnu landsins komst að. Að mestu leiti. Þetta er leið sátta og skynsamlegrar nýtingar okkar orkuauðlinda í okkar þágu. Þessi hugmynd um stofnun þjóðgarðs sem nefnd er í skýrslunni er vont innlegg í þá umræðu.
Sigurjón Sveinsson, 14.11.2011 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.