26.5.2009 | 14:37
Skjaldborgariddarar á ferð. Til hamingju Ísland!
Þetta er merkilegt. Ríkisstjórnarparið, Jóhanna og Steingrímur, hafa haft núna fimm mánuði til að forma hlutina, reisa þessa skjaldborg sína sem hún hefur hótað okkur með núna síðan hrunið varð. Hvað hafa þau gert? Jú, greiðslujöfnun. Váááá, lausnin er að taka þá sem gugna undan lánunum, sem hafa vaxið gífurlega undanfarin tvö ár (hvort sem íslenskt er erlent er), leiða skuldara sem gugnar fyrir gerðardóm með "tilsjónarmann", birta nafn viðkomandi í Lögbirtingarblaðinu ásamt þeim sem gjaldþrota eru, og niðurlægja á fleiri máta. Þetta eru lausnirnar sem komið hafa fram. Fyrirtækin eru núna yfirtekin af ríkisbönkunum eitt af öðru, og nú er það síðasta að berja með skjaldborginni á Exista, fyrirtæki sem er BÚIÐ að semja við sína stærstu lánadrottna, sem og lífeyrissjóðina.
Já, það er ekki verið að reisa neina skjaldborg til annars en til að lemja okkur með henni. Og ekki gleyma því að þýskir innlánseigendur Edge eru líka að finna fyrir þessum barsmíðum. Það var búið að ganga frá greiðslum til þeirra, en hei, snillingarnir á Austurvelli fundu ónotaða skjaldborg og börðu á Þjóðverjum með henni og komu í veg fyrir þessa greiðslu með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki.
Ekki ætla þeir að láta heldur þar við sitja heldur ráðast á helstu atvinnugrein landsins, og taka jafnt og þétt úr ranni hennar auðlindirnar sem keyptur hafa verið nytjaréttur að með tilheyrandi skuldsettningu. Núna er einmitt tíminn til slíks. Og þessir Hróu Hettir, skjaldborgariddarar, ætla svo að "gera eitthvað réttlátt" með þessa þjóðnýtingu, þó lítið hafi farið fyrir útfærsluhugmyndum. Já, lemjum á "sægreifum" og öðrum "auðjöfrum" (trillukarlar eru s.s. núna "sægreifar") með skjaldborgunum. Já, skjaldborgarriddararnir þekkja ranglætið (kvótakerfið) en hafa þau nokkra hugmynd um í hverju réttlætið er fólgið? Hvaða kerfi kemur í staðinn svo að "sægreifarnir" hinir vondu (trillukarlar t.d.) komist ekki úr skuldaviðjum? Lítið hefur nú farið fyrir því hvernig því verður hagað. Skjaldborgariddarar vita nefnilega ekki hvernig á að tala í lausnum og útfærslum. Þeir tala pólitísku, og þar má ekki nefna sannleikann, staðreyndir. Bara fara fram hjá óþægilegum spurningum, tala út og suður og nógu almennt að skjaldborgaskildir ná engum vörnum gegn skjaldborgahöggum. Skjaldborgafórnarlömb fá heldur engin svör við ánauð sinni og eymd. Bara fleiri skjaldborgahögg og -barsmíðar.
Jóhanna, Steingrímur, Gylfi og aðrir stjórnarliðar eru hér með tilnefndir til reglu hinna dugmiklu skjaldborgariddara*.
*Skjaldborgariddari fer um í nafni réttlætis og jöfnuðar og lemur á veiku fólki og fyrirtækjum með skjaldborg, hertri í eitruðum og innantómum kosningaloforðum og annarri froðu.
Ráðuneyti skipta um nöfn og hlutverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.