Víkingur Heiðar Ólafsson og Rachmaninoff Píanókonsert nr. 3 í in D minor, Op. 30

Dagurinn í dag var rússibani tilfinninga. Þengill sonum minn átti þriggja ára afmæli, vonbrigði í litlu bisness tækifæri sem ég er að taka þátt í, erfileikar í vinnuni, og svo bomban: Það leit út fyrir að ég myndi missa af píanókonsert Rachmaninoffs nr. 3 í fluttningi Víkings Heiðars Ólafssonar. En hver kemur og reddar manni þegar það lítur út fyrir að maður missi af tónlistaratburði ársins? Nú, Víkingur Heiðar, öðlingurinn og snillingurinn sjálfur.

Málið er það að ég hef lengi beðið eftir því, eða kannski öllu heldur vonað, að Víkingur Heiðar Ólafsson, hinn íslenski 23ja ára píanósnillingur, myndi taka Rach 3. með sinfóníunni. Ég meir að segja tjáði Víkingi þessa von mína einu sinni. Þannig að þegar dagskrá sinfóníunnar 2007-08 kom inn um lúguna hjá mér í ágúst fletti ég henni og leitaði að þessu, með von í hjarta. En ekkert sá. Blindi ég.

Því hvað heyrði ég svo í hádegisfréttum? Jú, frétt af því að Víkingur Heiðar myndi spila Rach 3 með sinfó í kvöld. Og að það væri löngu uppselt á tónleikana! Enda auglýst á bls.22 í tónleikaskrá vetrarins. Ég var þá að díla við fyrrnefnd vonbrigði í bissnesstækifæri (fer ekki frekar út í það) og þessar fréttir bara ullu mér flagandi hjartasári. Aaarrrhhh!  Það tónverk sem ég dýrka og dái, á í fluttngi Argerich, Horowitz og Helfgott, var að fara fram hjá mér, og allt mér sjálfum að kenna að missa af þessum gullmola.

Ég hringdi í ofboði og setti mig á biðlista hjá sinfóníunni eftir miðum sem kannski myndu losna, vitandi vits að það var vonlaus leið. Hrindi í Sindra mág minn og píanóstillara (með mikil sambönd í tónlistabransanum) og spurði hvort hann gæti gert eitthvað. Ekki var hann svo viss um það, og þekkjandi hann, þá var hann að segja mér mjúkum orðum að þetta myndi ekki ganga.

Hvað gerir maður þá? Þá grípa örvingla menn til örþrifaráða. Ég fór á ja.is og fletti upp Víkingi Heiðari. Og hringdi. Ég var, satt best að segja, ekki alveg í ró með þetta, fannst þetta heldur frekt að vera að biðja næstum því bláókunnugan mann um að redda mér miða á tónleikana hans. En viti menn, Víkingur var hinn þægilegasti, tók vel í þetta og þótti þetta bara hinn sjálfsagðasti  hlutur. Þetta var klukkan 14.

Klukkan tikkaði áfram, ef stafræn úr geta tikkað, og brátt var klukkan orðin 16. Ég fór að ná í börnin í leikskólann, fór með Bríeti í ballett. Þengill heimsótti ömmu og afa á meðan. Og þegar heim kom hringdi gemmsinn minn. „Víkingur hér, ég á einn miða handa þér“.

„Vá, þetta er bara næstum of gott til að vera satt“ hugsaði ég. „Heyrðu, það væri gott ef þú gætir sótt þá fyrir 18:45 í kvöld því þá kemur Sjónvarpið að taka viðtal við mig“ sagði Víkingur. „Ekkert mál, ég næ þessu“. Og ég náði þessu eftir smá kappakstur um bæinn til að koma börnunum til Elsu (sem var að vinna frameftir) og ná í miðann.

Það var merkilegt að koma þarna til Víkings. Ég hef reyndar hitt hann einu sinni áður, án þess þó að Víkingur viti nokkuð af því. Hann settist fyrir aftan mig eftir píanókonsert  Beethovens í vetur. En hvað um það. Ég hrindi bjöllunni, var hleypt inn með hinu kunnuglega suði í útihurðinni, og móðir Víkings, Svana, stóð efst í stiganum þegar ég kom inn, með stórt, innilegt og hlýtt bros handa mér. Víkingur kom rétt á eftir og hitti mig í stiganum, einnig með bros á vör, rétti mér miðann og óskaði mér góðrar skemmtunar. Ég tjáði honum að ég myndi fúslega endurgjalda greiðann, ef einhvern tíma hann þyrfti aðstoð með tölvur (það er minn heimavöllur), eða eitthvað álíka. Síðan þurfti Víkingur að sinna gestunum því Sjónvarpið var komið vegna viðtalsins.

Tónleikarnir sjálfir voru vægast sagt stórkostlegir. Byrjaði á Jóni Leifs, Forleik að Galdra-Lofti. Stórkostlegt verk, margslugnið, þungt, fjörugt og kröftugt. Síðan kom tilbrigði fyrir hljómsveit eftir Edward Elgar, virkilega skemmtilegt verk, fallegt og fjörugt.

Hlé.

Rach 3. Þetta verk er fyrir konsert píanista það sem Everest er fyrir háfjallaklifrara. Nokkurs konar milestone. Ef þú hefur tekið Rach 3 með stæl þá er það ákveðinn gæðastimpill. Víkingur kom og spilaði verkið, með hreint út sagt frábærri sinfóníuhljómsveit, með ekki síðri glæsibrag en þau verk sem ég á með Horowitz, Helfgott og Argerich. Ég var hreint út sagt agndofa og endurlifði þarna aftur á 40 mínútum þann tilfinningalega rússíbana sem dagurinn hafði verið. Og þekkjandi verkið vel, vissi ég alltaf hvað kæmi næst, hvernig þetta hljómaði þegar vel væri spilað, og Víkingur og sinfó voru ekkert að gera neitt síðra en fremstu sinfóníuhljómsveitir og píanóvirtuosar heimsins. Þetta var hreint út frábær fluttningur og ég veit/sá að Víkingur var sjálfur að fíla sig í botn þarna að spila þetta stórkostlega verk. Klífa Everest með stæl, án súrefnis.

Og þegar síðasta nótan var þögnuð réð ég ekkert við mig, spratt á fætur, klappandi eins og brjálaður og hrópaði „bravó, bravó“, með brostna rödd sem unglingsdrengur í mútum.

En punkturinn yfir i-ið var eftir. Eftir mestu fagnaðarlæti sem ég hef orðið vitni að á svona tónleikum spilaði Víkingur encore lag. Og það var sko á persónulegum nótum og vel til fundið.

Hann útsetti „Ave Maria“ eftir Sigvalda S. Kaldalóns og spilaði í minningu um afa sinn, Víking, í Salnum síðasta vetur. Það var falleg stund. Þá sem nú. Mjög innileg, persónuleg, og mikið afskaplega var útsetning Víkings Heiðars falleg í kvöld, fyrir fullum Háskólabíósal af fólki sem ekki gaf upp múkk á meðan lágstemdur leikur Víkings ómaði um salinn með þessu fallega lagi. Bara hélt í sér andanum og hlustaði á snilldina.

Ef Víkingur einhvern tíma les þetta þá má hann vita að hann gladdi mitt hjarta óskaplega í kvöld. Ég skulda þér, Víkingur. Bigtime. Og hann afi þinn hefði örugglega rifnað af stolti eftir framistöðu þína í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Takk fyrir þessa lýsingu Sigurjón. Það eru orðin ansi mörg ár síðan ég hlustaði á "Rach 3" á cd og lét mig dreyma um að verða einhvern tíma svona góð. Svo tók djammið við og ég hætti að láta mig dreyma
Mér finnst samt alltaf jafn gaman að hlusta og mæli mína hrifningu eftir því hversu langt gæsahúðin nær niður að tám.... ég þori að veðja að ég hefði verið eins og illa reyttur kjúklingur á þessum tónleikum sem þú varst svo heppinn að fá miða á.
Takk aftur - nú er ég farin að gramsa í gamla geisladiskasafninu

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 29.9.2007 kl. 11:36

2 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Hmm, ég frétti af þessum tónleikum í fréttum sjónvarps sama kvöld í orlofshúsi í Þjórsárdal, hlustaði á beina útsendingu á RÚV en náði ekki að hlusta á allan konsertinn, kláraði að hlusta á netinu í gær þegar maður var kominn heim. Hefði ég vitað af þessu með fyrirvara! Hvað hefði maður ekki gert til að komast á tónleikana! Heppinn ertu, þú mátt eiga það!

Róbert Badí Baldursson, 2.10.2007 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband