Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
30.3.2008 | 00:56
Orðinn faðir í þriðja sinn: Drengur fæddist í gær!
Okkur Elsu fæddist glæsilegur drengur í gær kl. 14:05. Hann er heilsuhraustur og allt gekk vel. Þeim mæðginum líður vel og við komum heim í dag.
Þessi ungi drengur er þriðja barn okkar hjóna, fyrir eigum við Bríeti (5) og Þengil (3).
Elsa var komin nærri tvær vikur framyfir, sett dagsetning á burð drengsins, skv. sérfræðingum, var 15. mars. 2008. En áætlaðar dagsetningar eru þeim galla háðar að vera áætlaðar og því fór sem fór eins og öllum áætlunum. Eitthvað fór fram úr. Eins og t.d. sett dagsetning. Nú, fyrst náttúran vildi ekki fylgja áætlunum þá var gripið til svokallaðrar "gangsetningar". Við Elsa keyrðum á Kvennadeild Landspítalans kl. 20 að kvöldi fimmtudagsins 26. mars og hetjan mín gekk til liðs við hinar frábæru ljósmæður sem þar vinna. Ég fór heim og beið tíðinda, því gangsetningar eru líka þeim annmarka háðar að ganga ekki alveg eins og áætlanir segja til um. Klukkan 05:00 hringdi síminn og Hetjan mín kallaði mig til leiks, "we are on" sagði hún.
Nú, ég burraði á staðinn og jú, eitthvað var byrjað, hríðarnar voru hafnar. Hetjan tók þessu með stóískri ró enda sjóuð kona í þessum málum. Ég var pollrólegur líka fyrst Hetjan var róleg. Dagurinn leið, og hríðar ágerðust. Til þess að gera langa sögu stutta þá endaði þetta allt með því að í heiminn kom ungur maður. Hann var glaðvakandi, undrandi og pollrólegur þegar hann fæddist og ég neita því ekki að ég brynnti músum þegar ég sá hann koma út og vera lagðann á maga mömmu sinnar.
Ég verð að segja eins og er að þetta er núna í þriðja skipti sem barn mitt kemur í heiminn á Fæðingardeild Landspítalans og alltaf verð ég svo fullur af ánægju með þá vinnu sem þær ynna af hendi, þessar ljósmæður sem þar starfa. Þær ljósmæður sem aðstoðuðu okkur mest voru þær Anna Sigga Vernharðsdóttir og Arney Þórarinsdóttir, ljósmæðranemi. Þær voru hreint út sagt frábærar!
Við áttum fyrstu tvö börnin í Hreiðrinu en þar sem gangsetningar geta ekki farið fram þar þá fæddist yngsta barnið mitt á almennu deildinni (eða hvað sem hún er nú kölluð) og við fórum svo yfir á Hreiðrið skömmu síðar. Við tókum síðan á móti smá heimsóknum okkar nánustu ættingja og að sjálfsögðu systkinum unga drengsins. Bríet og Þengill voru himin lifandi og spennt að hitta litla bróður sinn og létu vel að honum.
Í dag fórum við svo heim með unga manninn eftir að hafa verið útskrifuð af barnalækninum og ljóðsmóður Íslands, henni Rannveigu.
Það má skoða nokkrar myndir af unga manninum á ljósmyndasíðunni minni á sigurjon.net.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)