Færsluflokkur: Bloggar

Esjan í bítið

Fór á fætur kl. 5:30 í morgun, skóflaði í mig morgunmat, náði í bakpokann minn og hélt að rótum Esjunnar. Á leiðinni fór ég fram hjá hópi hjólreiðamanna, sem komu einnig að Esjunni og fóru upp einnig. Þeir reyndar voru komnir upp á undan mér enda fóru þeir styttri leiðina.

Ég náði upp að Steini á 54 mín og 28 sek. og þótti mér það ágætt miðað við að ég var 58 mín. síðast. Ég held ég reyni að fara upp 2-3 sinnum aftur fram að næstu helgi en þá fer ég á Hvannadalshnjúk með 30 vinnufélögum mínum.

Á leiðinni niður var ég á undan hjólreiðarmönnunum næstum alla leið. Rétt áður en ég kom að bílastæðinu komu þrír hlaupandi framhjá mér og bauð einn þeirra mér góðann daginn. Ég reyndar þóttist kannast eitthvað við kauða og sá, þegar á bílastæðið kom, að þarna var á ferð einn vinnufélagi minn af IT sviði Kaupþings.

Ég reyndar fór einu sinni á Esjuna á svipaðan máta og þeir gerðu, þ.e. spretti upp og hljóp niður og allt með bakpoka á bakinu. En þá var ég í flottu formi og hljóp hálf-maraþon nokkrum dögum síðar. Það form er löngu farið en annað form komið í staðinn, öllu verra. En það er svona, tímarnir breytast og mennirnir með. Mér þykir meira gaman þessa dagana að eta, borða vera með börnunum og fjölskyldunni en að hlaupa og dandalast um holt og hæðir.

Hef þó engar áhyggjur af Hnjúknum. Hann verður pís of keik. Been there, done that í frönsku Ölpunum. 


DV nei takk!!!

Þegar við vísitölufjölskyldan komum heim í gær beið okkar póstur við dyrnar, eins og vanalega. Nema hvað að í þetta sinn var þarna DV í hrúgunni. Við Elsa urðum undrandi enda ekki áskrifendur af þessu blaði. Nema hvað að ég fór að glugga í það eftir matinn, svona til að sjá af hverju ég fékk þetta. Jú, það kom í ljós að áskriftarátak er í gangi hjá þeim. En að efninu.

Það var að sjá af forsíðunni að í blaðinu yrði kjörtímabilið gert upp. Ekki kjörtímabil stjórnarinnar heldur bara kjörtímabilið. Samt voru einungis orð og verk sitjandi ríkisstjórnar gerð upp. Og ekki það jákvæða. Nei, einungis það neikvæða. íraksmálið, skattamál, fjölmiðlafrumvarpið, Baugsmálið o.s.frv. Ekkert um skattalækkanir, velferðamál, menntamál, heilbrigðismál, sala Símans, sala bankanna, ekkert sem stjórnin gerði sem var jákvætt.

Og ekki heldur var minnst á neitt af því stjórnarandstaðan gerði eða sagði. Jákvætt eða neikvætt. Það var því alveg augljóst að þetta DV blað var áróðursblað. Sem væri fínt ef árið væri 1983 meðan Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn voru og hétu. En nú til dags þykjast fjölmiðlar vera hlutlausir og taka sjálfa sig ofsalega hátíðlega. Prímadonnur. En nafni minn Egilsson fellur þarna í þann fúla pytt að vera með rakalausann áróður á huglægu mati blaðsins á staðreyndum þessa kjörtímabils rétt fyrir kosningar.

Mér líkar ekki svona "blaðamennska". Ef fyrirsögnin á forsíðu hefði verið "Neikvæðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu" þá hefði maður vitað að nú yrði farið yfir allt sem neikvætt var. Ekkert jákvætt, og allt bundið við ríkisstjórnina. En ef blaðið þykist ætla að gera upp kjörtímabilið þá er ekki úr vegi að stækka mengið, ekki satt?

En svo sá ég í morgun að Hreinn Loftsson er stjórnarformaður DV. Hmmmm ætli það hafi eitthvað að segja um efnistök þessa blaðs? 


Grasekkill - dagur 10

Gærdagurinn var ósköp viðburðalítill. Þengill er búinn að harðneita að fara í "litla" bílstólinn sinn undanfarið og ég brá á það ráð í gær að skipta stólnum hans fyrir stólinn sem Bríet var með í Golfinum. Þau eru þá núna s.s. með svipaðan stól. Enda eru þau svipað stór þó tvö ár rúmlega séu milli þeirra. Þengill var hæstánægur með þessa (fram?)þróun mála. Síðan kom ég við á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Grafarvogi og sníkti nælu þar til að setja í jakkakragann. Reyndar er þetta næla númer tvö sem ég sníki þar en sú fyrri endaði í kraga vinnufélaga míns sem þolir ekki Sjálfstæðisflokkin. Smá grín milli okkar.

Þetta grín gæti þó hafa dregið dilk á eftir sér. Í hádeginu mynduðust heitar pólitískar umræður yfir matnum og ég hafði lúmskt gaman af því. Næluþeginn fyrrnefndi varð mjög heitur og svo fórum við og fengum okkur kaffi saman, brosandi í bróðerni, eftir göngutúrinn úr mötuneytinu inn á vinnustaðinn. Þetta var skemmtilegur hópur, ég (XD) og svo einn XV, einn XS, einn (sennilega) XI og einn óþekkt stærð.

Á morgun verður foreldrasýning í Fífuborg og byrjar kl. 8 þannig að á morgun verður morgunstund með gull í mund og blóm í haga hjá okkur börnunum. Ræs rétt fyrir 7. 


Grasekkill - dagur 9

Jæja þá er helgin liðin og ég er orðinn 36 ára. Afmælisdagurinn fór hjá frekar meinlaus. Veðrið setti smá strik í reikninginn, ég ætlaði í Húsdýra- og Fjölskyldugarðinn með börnin í boði Samfylkingarinnar. En það byrjaði að rigna all hressilega í hádeginu og á sama tíma komu gestir til mín í brunch. Þegar því lauk var Þengill sofnaður en veðrið var orðið ágætt. Þegar Þengill svo vaknaði var orðið heldur  seint í rassinn gripið að fara í garðinn. En ég bauð þá bara framleiðendum mínum og bróður í mat og gerði gott úr því. Eldaði nautalundir ásamt bökuðum kartöflum og salati, borið fram með [Yellow tail] rauðvíni, ís í eftirmat, kaffi og koníak.  Næs kvöldstund með þeim nánustu, synd var þó að Elsa var ekki á staðnum. Ég saknaði hennar mikið þarna.  Buuuhuuuuuu.

[Sniff] Daginn eftir vöknuðum við seint aftur, við börnin. Um hádegið borðuðum við hádegismat en fórum svo niður að horfa eitthvað á imbann. Nema hvað, Þengill meiddi sig eitthvað og kom til mín grátandi. Ég lá í sófanum og tók hann til mín, lagði hann á bringuna á mér og þannig sofnaði hann með smá grátbólgin augu. Og ég sofnaði svo líka í kjölfarið. Þetta höfum við feðgar ekki gert í langann tíma og mikið var þetta yndislegt. Síðan vöknuðum við um 14:30 og skutluðumst niður á ströndina við Geldinganes og skottuðumst um þar. Elsa var reyndar á ströndinni líka, bara í Hollandi í aðeins meiri hita en við.

Við skiptum liði í kjölfarið. Bríet fór til vinkonu sinnar Salnýjar Kaju í Kópavoginum, dóttur Sigurgeirs og Signýar. Við Þengill boðuðum komu okkar til Þorfinns og Söru, höfðingjahjónum í Brúnastöðum, og fengum þar vöfflur, sultu og rjóma. Þengill borðaði þar tvær vöfflur. Við dokuðum við og ákváðum að slá saman kvöldverði einnig. Ég fór heim og náði í hamborgara fyrir börnin sem ég átti þar. Við fullorðna fólkið snæddum Lasagna að hætti Söru. Dásamlegt alveg.

Síðan var haldið heim með viðkomu í Kópavogi (ná í Bríeti) og farið að sofa fljótlega eftir það. Það kom smá baklás í Bríeti þegar hún var að fara í náttfötin, hún fékk yfir sig skyndilegt "ég sakna mömmu svo rosalega" kast og brynnti músum yfir því. Við sættumst þá á það að við myndum öll fara að ná í mömmu á föstudagskvöldið út á flugvöll. Það er gott að eiga svoleiðis spil upp í erminni þegar grátköst koma.

Í morgun var Þengill þungur á fætur. Ég hef tekið eftir því að undanfarið er hann að vera sprækur sem lækur á morgnanna. Hann var vanur að spretta upp sem fjöður um leið og hann vaknaði og heimta að fara fram úr. Núna morrar hann út í eitt, og tekur 5 mínútur í það að vakna. Rólega. Góð þróun þar á ferð. 


Til hamingju með afmælið ég.

Ég á afmæl'í dag,
ég á afmæl'í dag.
Ég á afmæli sjálfuuuuuuuur.
Ég á afmæl'í dag.

Til hamingju með afmælið, ég.

Ó takk fyrir ég.

Hvað er ég gamall/ungur í dag?

Ég er 36 ára.

Svo mörg voru þau orð.

Þengill svaf til 9:30 og við Bríet til 8:30. Æði. 


Grasekkill - dagur 6

Jæja, upp á Esjuna fór ég í gær. Við Jón Heiðar fórum í tvíeyki upp og vorum 1 klst og 2 mín upp að steini. Þetta var bara ágætis túr. Ég reyndar rifjaði það upp að þegar ég var þrítugur var ég rétt rúmlega klukkutíma að fara upp og niður. Farið er það form :(

En á meðan ég var nýbúinn að svitna á Esjunni var mamma með börnin. Hún fór í Rimaskóla með þau þar sem dagskrá var, hoppukastalar og svoleiðis. Nema hvað að þegar ég var nýkominn úr baði hringdi mamma og bað mig að hjálpa sér. Þengill var ekki sáttur við að þurfa að bíða alltaf í röð eins og hinir og lét ófriðlega. Ég mætti bara á staðinn og þetta var bara gaman fyrir þau blessuð börnin að vera þarna. Og Samfylkingin gaf mér miða fyrir mig og börnin í Húsdýra og Fjölskyldugarðinn á laugardaginn, sem er afmælisdagurinn minn. Ég fékk reyndar einn til viðbótar seinna og ætla að bjóða Þorfinni og Söru og co þann miða.

Síðan var farið í bakkelsi og svo kvöldmat hjá mömmu og pabba. Svo heim að sofa.

Grasekkill - dagur 5

Jæja, þá erum við börnin komin á fætur. Sumardagurinn fyrsti framundan. Þetta virðist ætla að verða kaldur en bjartur dagur. Heiðskýrt en frost. Sumar og vetur frusu sem sagt saman og það boðar gott sumar.

Passatinn var aftur rafmagnslaus í gær þegar ég ætlaði heim úr vinnunni. Dauður. Ég fékk start hjá Kalla og fór rakleiðis í N1 (bílanaust). Þegar þangað kom var búið að loka, klukkan orðin tvær mínútur yfir. Ég grenjaði úr mér augun um rafgeymamál mín við afgreiðslumann sem stóð í dyrunum og varnaði svona eftirlegukindum eins og mér inngöngu eftir lokun. Hann sá aumur á mér, svona tárblautum og vesællegum og afgreiddi mig meir að segja sjálfur um geymi.

Síðan fór ég heim til M&P í mat, dýrindisgóða fiskisúpu. Síðan þegar heim átti að fara frá þeim var bíllinn aftur orðinn rafmagnslaus. Pabbi kom út með vasaljós og kíkti ofan í geymirinn. Og úrskurðurinn var: Ónýtur. S.s. ég hafði gert rétt með því að kaupa nýja rafgeyminn og setti ég hann í þegar heim kom. Bríet og Þengill hjálpuðu mér að sjálfsögðu og var aðstoð þeirra ómetaneg við að losa og herða þessar þrjár rær sem og að skipta um geyminn sjálfann.

Þar af leiðandi hef ég engar áhyggjur af því hvort bíllinn fari í gang núna, hann er með nýjan geymi.

Við förum til mömmu og pabba eftir smástund. Þau ætla að hafa börnin á meðan ég skrepp uppá Esjuna svona snöggvast. Já, ég er á leiðinni uppá Hvannadalshnjúk eftir mánuð og það er sko kominn tími á að ég fari að koma mér í eitthvað form til þess arna. Skrifa um það seinna.

Já, og E. Golfinn er kominn aftur á söluna og verður þar meðan ég/við þurfum ekki á tveim bílum að halda. 


Grasekkill - dagur 4

Já, dagarnir koma og fara. Líka þegar maður er grasekkill. Dagurinn í gær var ekkert neitt stórmerkilegur fyrir utan það að mér tókst að fara í Sorpu með hauginn af flöskum og dósum sem var í kerrunni okkar og kom úr Berjarima. 244 plastflöskur, 138 áldósir og 55 glerflöskur. Og fyrir þetta fékk ég 4370 kr. takk fyrir. Fór líka með dagblöðin og fékk ekkert fyrir það.

Síðan fór ég til mömmu að ná í börnin og þar sagði Þengill "Ég þekki þig" þegar ég tók hann upp. Já, ég var hálf feginn að hann þekkti mig, ég er kominn með svo mikið skegg núna og hár að maður er óþekkjanlegur orðinn. Ég fór með Bríeti og Þengil heim og kom þeim í rúmið. Síðan horfði ég á mynd sem heitir "The good Shepherd" um fæðingu og tilurð CIA og þótti hún hin besta skemmtun.

Í morgun tók við hinn hefðbundni dans að koma börnunum á fætur og í leikskólann. Nema hvað að í dag var smá action í morgunsárið. Bíllinn var rafmagnslaus þegar ég reyndi að ræsa hann og allir heimilismeðlimir komnir í belti. Já, rafmagnslaus.  Blessunarlega var ég með startkapla í bílnum. Og ég rak upp hið alþjóðlega og alþekkta neyðaróp og hringdi í mömmu. Ég vissi nefnilega af henni á ferðinni í nágrenninu á þessum tíma. Og viti menn, hún svaraði og var komin eftir 4 mínútur að redda syninum og barnabörnum sínum, svo þau gætu haldið áfram á vit nýrra ævintýra.

Nú er bara framhaldssagan: Verður Passatinn rafmagnslaus á eftir? Í fyrramálið? Ég læt ykkur vita á morgun. 


Grasekkill all over again - dagur 3

Við börnin vöknuðum að morgni sunnudags sl. og okkur þótti sem eitthvað vantaði. Við vorum fljót að átta okkur á því að mömmu vantaði. Já, Elsa fór til Hollands í tvær vikur í námskeið á vegum IKEA. Ég er s.s. orðinn grasekkill all over again.

Sunnudagurinn leið nokkuð vel og án teljandi atvika. Við bara sinntum því að koma okkur fyrir í nýja húsinu okkar, og þetta er allt að koma. Börnin söknuðu mömmu sinnar að sjálfsögðu og ég líka, en við hörkum þetta af okkur og hlökkum til endurkomu hennar. Þengill tók uppá því að nota snuð sunnudagskvöldið og fór með það að sofa. Drengsi er 2 1/2 árs gamall og hefur aldrei viljað snuð hingað til. Pabba hans þótti það nú heldur seint í rassinn gripið að Þengill færi að totta "duddu" núna á "gamals" aldri en svona er það.

Þengill vaknaði svo daginn eftir, í gærmorgun, og krafðist snuddu sinnar strax og engar refjar. Hann fékk það að sjálfsögðu. Og með þetta fór hann í leikskólann.

Mamma sótti börnin í leikskólann og mun sækja þau í fjarveru Elsu svo ég geti nú klárað mína vinnu dag hvern. Síðan sæki ég þau til hennar. Nema hvað að í gær fengum við líka að borða hjá mömmu og það var gaman að sjá hvað Þengill tók hraustlega til matar síns. Hann gúffaði í sig 4 heilar kjötfarsbollur með bestu list, og systir hans, Bríet fékk sér 2. Og krafðist þess að sitja við hlið Friðgeirs frænda, bróður míns, við matarborðið, sem einnig var í heimsókn hjá mömmu og pabba.

Nú, svo fórum við öll heim í Æsuborgir og tókum til við að vinna á geymsluhaugnum sem er núna í bílskúrnum. Já, allt sem var í geymslum í Berjarima er núna í bílskúrnum og váááá hvað við áttum mikið dót. Kassar og pokar með dóti, bókum, fötum og ýmsu fylltu bílskúrinn. Og við pabbi og mamma unnum í því í gær að sortera þessa kassa og poka og setja uppá loftið til betri geymslu þar sem maður þarf ekki að horfa á þessar söfnunarsyndir dag hvern.  Við náðum slatta góðum árangri og í dag ætla ég að reyna að komast í gegnum það að flokka allar dósirnar og plastflöskurnar sem við tókum úr Berjarimanum og fara með í sorpu, sem og að klára skúrinn eins og ég get.


Jesús, María, Jósef og Tom Cruise hvað hún er stór

Mér varð það á að líta til hliðar akkúrat þegar vélin fór fram hjá vinnustað mínum og sá hana ansi vel. OG HVAÐ HÚN ER STÓR! Váááááááá. Og miðað við stærð virkaði flughraðinn eins og hún rétt silaðist áfram, haldið uppi af einhverju kraftaverki.

Það sem vakti athygli mína einnig að enginn hávaði barst frá vélinni. Það heyrðust akkúrat engar drunur eða hljóð yfir höfuð. Man ég þá tíð að maður gat varla talað saman á jörðu niðri ef flugvél flaug yfir í 33.0000 feta hæð. Núna flýgur hún yfir í tveggja metra hæð án hljóðs.

Hei, nýtt slagorð í Kók auglýsingu. Stærsta flugvél í heimi með ZERO hljóði. Nei, virkar ekki, vantar alla karlrembu í þetta.


mbl.is Stærsta farþegaþota í heimi yfir Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband